Prologus var stofnað 1997 af Guðmundi Einarssyni, aðalhönnuði fyrirtækisins. Guðmundur lagði stund á iðn- og vöruhönnun við Istituto Europeo di Design á Ítalíu og framhaldsnám við Rhode Island School of Design í Bandaríkjunum og opnaði ráðgjafastofu undir eigin nafni á Íslandi 1993. Á þessum árum vann Guðmundur jöfnum höndum að ráðgjöf, vöruþróun, verkefnastjórnun og hönnun fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi og erlendis. Samhliða vann Guðmundur að eigin vöru- og húsgagnahönnun sem síðar varð grundvöllur að stofnun Prologus.
Prologus hefur lagt áherslu á að byggja upp öflugt og leiðandi hönnunarhús þar sem saman kemur hæfileikaríkt fagfólk á ólíkum sviðum í samstarfi við fjölmörg íslensk iðnfyrirtæki sem hafa áratuga reynslu af framleiðslu og smíði. Gagnkvæmt traust þar á milli og samhæfing hugvits, þekkingar og færni í hönnun er það sem fyrirtækið vill standa fyrir og endurspeglast í vörum fyrirtækisins.
Sem hönnunarhús hefur Prologus kappkostað að hlúa að þeim verðmætum og gæðum sem tengjast fyrirtækinu og byggir hugmyndafræðin á þessum þáttum. Ímyndin er einlæg og hrein í takt við þá ímynd sem hefur einkennt Ísland útávið og byggir á því sem landið hefur upp á að bjóða - vistvænt og hreint land í rökréttu samhengi við nýtingu fólks á náttúruauðlindum.
Fágun og fagmennska hafa verið einkunnarorð fyrirtækisins frá upphafi og við hönnun á vörulínum Prologus er það metnaðurinn við að gera alltaf sitt besta á hverju sviði sem hafður er að leiðarljósi. Þar leggjast allir á eitt svo árangurinn verði í samhengi við þær forsendur og markmið sem lagt var upp með.
Prologus er leiðandi íslenskt hönnunarhús sem hannar og framleiðir íslensk húsgögn og kappkostar að vinna náið með viðskiptavinum sínum og hefur á undanförnum áratug sérhæft sig í hönnun, framleiðslu og sölu á húsgögnum og innanstokksmunum fyrir fyrirtæki og heimili. Í dag býður fyrirtækið fjölbreytt úrval húsgagna og fylgihluta, meðal annars stóla, sófa, skenka, skiltalínur, sýningaskápa, bæklingastanda og skrifstofuhúsgögn auk þess að bjóða upp á sérhannaðar lausnir.